PGA: Streelman og Fitzgerald unnu liðakeppnina

AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu lauk í gær með sigri Ted Potter, Jr. Hann endaði á 17 höggum undir pari og vann mótið með þremur höggum.

Mótið er eitt af nokkrum mótum á hverju tímabili þar sem áhugamenn leika með atvinnumönnum og er sérstök keppni þar í gangi. Í liðakeppninni voru það þeir Kevin Strellman og Larry Fitzgerald sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Þeir léku hringina fjóra á samtals 41 höggi undir pari og áttu þeir meðal annars besta hring mótsins, 58 högg, fyrsta daginn. Það var eini hringur mótsins undir 60 höggum.

Larry Fitzgerald er einn af betri hlaupurum NFL deildarinnar og leikur hann með Arizona Cardinals. Hann er með 13 í forgjöf og hann sagði eftir mótið að hann ætlaði að láta gera annan alveg eins bikar sem hann gæti gefið Streelman.