PGA: Simpson sigraði á Players meistaramótinu

Bandaríski kylfingurinn Webb Simpson sigraði með fádæma yfirburðum á Players meistaramótinu sem fór fram um helgina á PGA mótaröðinni.

Simpson lék hringina fjóra samtals á 18 höggum undir pari og sigraði að lokum með fjögurra högga mun. Simpson gat leyft sér að spila lokahringinn á höggi yfir pari en sigurinn var í raun aldrei í hættu. 

Charl Schwartzel, Jimmy Walker og Xander Schauffele deildu öðru sætinu en þeir léku hringina fjóra á 14 höggum undir pari. Nafnarnir Jason Day og Jason Dufner enduðu svo jafnir í 5. sæti á 13 höggum undir pari.

Tiger Woods setti í fluggír snemma á lokahringnum og var á tímabili kominn á 6 högg undir par og samtals á 14 höggum undir pari í mótinu. Hann gaf aðeins eftir á lokaholunum og endaði í 11. sæti á 11 höggum undir pari.

Webb Simpson hefur nú sigrað á fimm mótum á PGA mótaröðinni en hans stærsti sigur kom á Opna bandaríska árið 2012.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is