PGA: Rickie Fowler sigraði eftir magnaðan hring

Lokahringurinn á Hero World Challenge mótinu fór fram á Bahamaeyjum í dag, en mótið er hluti af PGA mótaröðinni. Fyrir daginn leit allt út fyrir að Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman myndi sigra, en hann var þá með fimm högga forystu á næstu menn. Það var hins vegar samlandi hans, Rickie Fowler, sem kom sá og sigraði með ótrúlegum lokahring, sem hann lék á 11 höggum undir pari.

Rickie hóf leik á 1. holu í dag og fékk fugl á fyrstu sjö holum dagsins. Hann fékk svo par á 8. holunni en fugl á 9. og lék því fyrri 9 holurnar á 8 höggum undir pari. Á seinni 9 holunum fékk Rickie svo þrjá fugla til viðbótar og kom því í hús á 61 höggi, eða 11 höggum undir pari. Þar með lyfti hann sér upp um 4 sæti og endaði í fyrsta sæti, á samtals 18 höggum undir pari.

Í 2. sæti varð svo Charley Hoffman, en hann lék hringinn í dag á parinu og endaði því fjórum höggum á eftir Rickie, á samtals 14 höggum undir pari. Tommy Fleetwood og Jordan Spieth deildu svo 3. sætinu, á samtals 12 höggum undir pari.

Tiger Woods, gestgjafi mótsins, lauk leik jafn í 9. sæti á samtals 8 höggum undir pari. Hann lék vel í dag og kom í hús á 68 höggum, eða 4 höggum undir pari.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.


Charley Hoffman endaði í 2. sæti