PGA: Rahm tók forystuna með frábærum hring

Þriðji hringur Players meistaramótsins var leikinn í dag og er það Jon Rahm sem er í forystu eftir daginn. Rahm er með eins höggs forystu á næstu menn.

Rahm lék hreint út sagt frábært golf í dag. Hann var aðeins á tveimur höggum undir pari eftir átta holur en þá kom níu holu kafli þar sem hann lék á sjö höggum undir pari. 18. holuna lék hann svo á pari og kom því í hús á 64 höggum, eða átta höggum undir pari. Samtals er Rahm á 15 höggum undir pari.

Bæði Fleetwood og McIlroy, sem voru í forystu fyrir daginn, byrjuðu frekar rólega en báðir voru þeir yfir pari lengi vel á hringnum. Þeir náðu þó báðir að snúa því við og komu báðir í hús á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari. Samtals eru þeir á 14 höggum undir pari eftir daginn, jafnir í öðru sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.