PGA: Nær Howell III fyrsta sigrinum í 11 ár?

Bandaríkjamaðurinn Charels Howell III er með eins höggs forystu á þá Jason Gore og Cameron Champ fyrir lokahringinn RSM Classic mótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni.

Þrátt fyrir að hafa verið á PGA mótaröðinni í hátt í 20 ár er Howell III einungis búinn að vinna tvö mót en hann hefur líklega verið sá allra stöðugasti á þessum tíma. Takist honum að sigra um helgina verður það hans fyrsti sigur á mótaröðinni frá árinu 2007.

Howell III lék þriðja hringinn á 2 höggum undir pari og er samtals á 16 höggum undir pari. Gore og Champ fylgja fast á hæla hans á 15 höggum undir pari en tvö högg eru í þá Webb Simpson og Rich Blaum sem eru jafnir í 4. sæti.

Patrick Rodgers átti besta hring dagsins. Hann lék á 9 höggum undir pari og er í 7. sæti fyrir lokahringinn.

Austin Cook á litla sem enga möguleika á að verja titil sinn í mótinu en hann er á 8 höggum undir pari eftir þrjá hringi, 8 höggum á eftir Howell III.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is