PGA: Mullinax setti nýtt vallarmet í Texas

Bandaríkjamaðurinn Trey Mullinax gerði sér lítið fyrir og setti nýtt vallarmet á TPC San Antonio Oaks vellinum í dag þegar hann lék á 10 höggum undir pari. Mullinax er meðal keppenda á PGA móti helgarinnar, Valero Texas Open, og er kominn upp í efsta sæti þegar fréttin er skrifuð.

Mullinax fór af stað með látum á þriðja hringnum og fékk þrjá fugla á fyrstu fjórar holurnar. Næsti fugl kom þó ekki fyrr en á 10. holu en seinni níu holurnar voru ótrúlegar hjá kappanum.

Eftir fugl á 10. holu fékk Mullinax skolla á 11. holu og fugl á þeirri tólftu. Síðustu fimm holurnar lék hann svo á 6 höggum undir pari þar sem hann fékk erni á 14. og 18. holu og fugla á 16. og 17. holu.

62 högg er nýtt vallarmet á TPC San Antonio Oaks vellinum og er Mullinax nú á 12 höggum undir pari í mótinu og í forystu. Efstu kylfingar eiga þó eftir að leika nokkrar holur á þriðja hringnum og því getur staðan breyst eitthvað.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is