PGA meistaramótið fært fram í maí frá og með árinu 2019

Fjórða og síðasta risamót ársins hefur alltaf verið PGA meistaramótið og hefur það farið fram í ágúst ár hvert. Frá og með árinu 2019 verður mótið aftur á móti leikið í maí og mun því Opna mótið, sem fer fram í júlí, verða síðasta risamótið.

Ásamt því að færa PGA meistaramótið verður Players meistaramótið, sem oft er kallað fimmta risamótið, fært fram í mars en það hefur venjulega verið leikið í maí. Að lokum mun lokakafli mótaraðarinnar, umspilið um FedEx bikarinn, vera stytt úr fjórum mótum í þrjú.

Ástæðan fyrir öllum þessum breytingum er aðallega vegna þess að í byrjun september hefst ameríski fótboltinn, bæði atvinnumanna og háskóla, og hefur það verið markmið PGA mótaraðarinnar um nokkurt skeið að koma í veg fyrir þennan árekstur

Risamótin árið 2019:

- Masters: 11.-14. apríl
- PGA meistaramótið: 16.-19. maí
- Opna bandaríska: 13.-16. júní
- Opna meistaramótið: 18.-21. júlí