PGA: McIlroy úr leik á Players

Norður-Írinn Rory McIlroy komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Players meistaramótinu sem fer fram á TPC Sawgrass á PGA mótaröðinni.

McIlroy var á leið í gegnum niðurskurðinn þegar hann sló upphafshöggið sitt á 17. holunni í vatnið og fékk tvöfaldan skolla. Hann verður því ekki með um helgina þegar lokahringir mótsins fara fram en hann lék fyrstu tvo hringina samtals á höggi yfir pari.

Tímabil McIlroy hefur verið mjög sveiflukennt. Eftir tvö mót í röð í topp-3 á Evrópumótaröðinni í byrjun árs gekk ekkert hjá kappanum í nokkrar vikur og virtist sjálfstraustið í molum. Þá setti hann í fluggír á Arnold Palmer Invitational og sigraði á mótinu eftir ótrúlegan endasprett.

Síðan þá hefur McIlroy komið sér í toppbaráttuna á Masters mótinu en þess utan ekki náð sér á strik. Á Players meistaramótinu virtist aftur sjálfstraustið ekki alveg vera til staðar og verður fróðlegt að fylgjast með Norður-Íranum næstu vikur. 

McIlroy var þó ekki eina stjarnan sem féll úr leik á Players mótinu að þessu sinni en auk hans komust Hideki Matsuyama, Martin Kaymer, Rickie Fowler og Phil Mickelson ekki áfram.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is