PGA: McIlroy sigraði á Players meistaramótinu

Norður-Írinn Rory McIlroy fagnaði í dag sigri á Players meistaramótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni um helgina á TPC Sawgrass vellinum í Flórída.

McIlroy lék hringina fjóra í mótinu á 16 höggum undir pari og varð að lokum höggi á undan Bandaríkjamanninum Jim Furyk sem var óvænt í toppbaráttunni um helgina.

Spennan var mikil á lokahring mótsins og voru um 10 kylfingar tveimur höggum frá efsta sætinu þegar nokkrar holur voru eftir. McIlroy lék hins vegar frábært golf þegar mest á reyndi, fékk fugla á 15. og 16. holu og fagnaði eins höggs sigri.

Sigurinn er kærkominn hjá McIlroy sem hefur byrjað tímabilið frábærlega á PGA mótaröðinni en ekki náð að spila nógu vel á lokahringjunum til að vinna mót. Eftir mótið færist hann upp í efsta sæti stigalistans.

Með sigrinum er McIlroy kominn með 15 sigra á PGA mótaröðinni en þetta var hans fyrsti á Players meistaramótinu.

Eddie Pepperell og Jhonattan Vegas deildu þriðja sætinu í mótinu á 14 höggum undir pari. Þeir áttu bestu hringi dagsins en þeir léku báðir á 66 höggum eða 6 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna.

 

Ísak Jasonarson
isak@vf.is