PGA: Kodaira sigraði eftir bráðabana

Það var Japaninn Satoshi Kodaira sem stóð uppi sem sigurvegari á RBC Heritage mótinu, sem lauk nú fyrir skömmu. Leika þurfti bráðabana, en ásamt Kodaira lék Si Woo Kim.

Fyrir daginn var Kodaira á sjö höggum undir pari, sex höggum á eftir Ian Poulter. Eftir níu holur var Poulter í góðum málum á samtals 14 höggum undir pari, en fimm skollar á síðari níu holunum ollu því að hann helltist úr lestinni.

Á meðan lék Kodaira við hvern sinn fingur og kom í hús á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari. Hann fékk sjö fugla, tvo skolla og restina pör og var því kominn í hús á 12 höggum undir pari.

Si Woo Kim var þá enn út á velli og í forystu á 13 höggum undir pari. Hann tapaði aftur á móti höggi á 16. holunni og endaði því líkt og Kodaira á 12 höggum undir pari.

Í bráðabananum var 18. holan leikin tvisvar og fengur þeir báðir par í bæði skiptin. Því var 17. holan leikin og fékk þá Kodaira fugl á meðan Kim missti sitt pútt. Þetta var fyrsti sigur Kodaira á PGA mótaröðinni.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.