PGA: Kim sigraði á nýju mótsmeti

Bandaríkjamaðurinn Micheal Kim var í algjörum sérflokki á John Deere Classic mótinu sem fór fram um helgina á PGA mótaröðinni. Kim lék á 27 höggum undir pari sem er nýtt mótsmet en hann sigraði á endanum með 8 högga mun.

Kim var kominn 22 högg undir par eftir þrjá hringi og lék eins og reynslubolti á lokahringnum þegar hann kom inn á 5 höggum undir pari. Á 16. holu setti hann til að mynda langt pútt niður fyrir fugli og bað áhorfendur um að fagna enn hærra.

Michael Kim er 25 ára gamall kylfingur sem hefur undanfarin ár leikið á Web.com mótaröðinni í Bandaríkjunum. Sigurinn um helgina var hans fyrsti á PGA mótaröðinni.

Ítalinn Francesco Molinari endaði í 2. sæti á 19 höggum undir pari og varð jafn þeim Joel Dahmen, Sam Ryder og Bronson Burgoon.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is