PGA: Kevin Kisner í forystu

Annar hringur á PGA meistaramótinu var leikinn í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum í dag. Mótið er fjórða og síðasta risamót ársins. Fyrir daginn voru það Kevin Kisner og Thorbjorn Olesen sem voru jafnir í fyrsta sæti á fjórum höggum undir pari. Kisner hefur nú einn tekið forystuna, en hann er á samtals 8 höggum undir pari.

Kisner lék hringinn í dag á fjórum höggum undir pari, líkt og í gær. Á hringnum fékk hann einn örn, þrjá fugla og einn skolla. Þegar þetta er skrifað hafa ekki allir kylfingar lokið leik. Hideki Matsuyama hefur fært sig upp um 13 sæti og er á fimm höggum undir pari í dag eftir 14 holur. Hann situr þar með einn í öðru sæti á samtals 6 höggum undir pari.

Jason Day situr einn í þriðja sæti á samtals 5 höggum undir pari, en hann hefur lokið við 10 holur í dag og lék þær á fjórum höggum undir pari.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.