PGA: Howell III með tveggja högga forystu á RSM Classic

Bandaríkjamaðurinn Charles Howell III lék fyrsta hringinn á RSM Classic mótinu á 8 höggum undir pari. Leikið er á tveimur völlum í mótinu, annars vegar á Plantation vellinum og hins vegar Seaside vellinum hjá Sea Island golfklúbbnum í Georgíu fylki.

Howell III lék á Plantation vellinum líkt og 13 af 15 efstu kylfingunum eftir fyrsta hringinn. Hann fékk alls átta fugla og tapaði ekki höggi.

Þrátt fyrir að hafa verið á PGA mótaröðinni í hátt í 20 ár er Howell III einungis búinn að vinna tvö mót en hann hefur líklega verið sá allra stöðugasti á þessum tíma. Takist honum að sigra um helgina verður það hans fyrsti sigur á mótaröðinni frá árinu 2007.

J.J. Spaun og sigurvegari síðasta árs, Austin Cook, eru jafnir í öðru sæti á 6 höggum undir pari. Höggi á eftir þeim eru þeir Aaron Baddeley, Davis Love III og Chase Wright.

Högglangi kylfingurinn Cameron Champ er einn þeirra sem situr í 7. sæti á 4 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is