PGA: Fyrsti sigur Landry kom á Valero Texas Open

Bandaríkjamaðurinn Andrew Landry sigraði í dag á Valero Texas Open mótinu sem fram fór á PGA mótaröðinni. Landry lék hringina fjóra á 17 höggum undir pari í heildina og sigraði með tveggja högga mun.

Landry var, ásamt Zach Johnson, með forystu fyrir lokahring mótsins á 13 höggum undir pari. Frábær byrjun á lokahringnum gerði það að verkum að hann var kominn með ágæta forystu fyrir seinni níu holurnar. Landry kláraði hringinn að lokum á fjórum höggum undir pari og sigurinn því í höfn.

Sean O'Hair og Trey Mullinax enduðu jafnir í 2. sæti á 15 höggum undir pari. Jimmy Walker endaði svo í fjórða sæti á 14 höggum undir pari og Zach Johnson í því fimmta á 13 höggum undir pari.

Nýjasti atvinnukylfingur mótaraðarinnar, Joaquin Niemann, endaði í 6. sæti í mótinu á 12 höggum undir pari. Hann lék seinni tvo hringina samtals á 10 höggum undir pari en þessi fyrrum besti áhugakylfingur heims virðist til alls líklegur á sínu fyrsta tímabili sem atvinnukylfingur. Nánar er hægt að lesa um hann með því að smella hér.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is