PGA: Fleetwood og Bradley í forystu á Players

Eitt stærsta mót ársins á PGA mótaröðinni fyrir utan risamótin fjögur, Players meistaramótið, hófst í dag á TPC Sawgrass vellinum.

Tommy Fleetwood og Keegan Bradley léku manna best á fyrsta hringnum en þeir léku báðir á 7 höggum undir pari. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa leitt eftir 36 holur á Arnold Palmer Invitational mótinu um síðustu helgi þegar Francesco Molinari sigraði.

Byeong Hun An og Brian Harman eru jafnir í öðru sæti á 6 höggum undir pari, höggi á undan Rory McIlroy, Vaughn Taylor og Ryan Moore. Moore átti tilþrif dagsins þegar hann fór holu í höggi á hinni heimsfrægu 17. holu.

Tiger Woods lék fyrsta hringinn á 2 höggum undir pari og er jafn í 35. sæti. Woods fékk alls sex fugla á hringnum en gerði of mörg mistök sem leiddu til fjögurra skolla.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is