PGA: Henrik Stenson leiðir fyrir lokahringinn

Þriðji hringur á Arnold Palmer Invitational mótinu á PGA mótaröðinni var leikinn í dag. Það er áfram Svíinn Henrik Stenson sem er í forystu, en hann hefur leitt allt frá fyrsta hring. Forysta hans er þó naum, en hann er samtals á 12 höggum undir pari, einu höggi á undan næsta manni.

Stenson lék hringinn í dag á einu höggi undir pari þar sem hann fékk fjóra fugla, þrjá skolla og restin pör. Í 2. sæti er Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau en hann var í forystu eftir tvo hringi ásamt Stenson. Bryson lék hringinn í dag á parinu og er því enn samtals á 11 höggum undir pari. Á hringnum í dag fékk hann þrjá fugla, þrjá skolla og restin pör. 

Það er svo Rory McIlroy sem situr í 3. sæti á 10 höggum undir pari. Hann átti góðan hring í dag og kom í hús á fimm höggum undir pari. Stutt er á milli efstu manna og því getur allt gerst á lokahringnum sem fram fer á morgun.

Tiger Woods lék á þremur höggum undir pari í dag og er samtals á 7 höggum undir pari. 

Hér má sjá stöðuna í mótinu.