Paul Dunne segist ekki hugsa um Ryder bikarinn

Paul Dunne endaði í öðru sæti á Opna spænska meistaramótinu sem lauk nú á sunnudaginn. Dunne endaði tveimur höggum á eftir Rahm á 18 höggum undir pari, eftir að hafa verið í forystu fyrir lokahringinn.

Dunne hefur leikið vel að undanförnu og hefur hann til að mynda endað á meðal 10 efstu á þremur síðustu mótum sem hann hefur leikið í. Eftir helgina er hann kominn í 68. sæti heimslistans og hefur hann aldrei verið hærra. Takist honum að vera á meðal 60 efstu eftir 21. maí eða eftir 11. júní mun hann vinna sér inn þátttökurétt á Opna bandaríska meistarmótinu sem hefst 14. júní.

Eftir mótið um helgina var Dunne spurður út í Ryder bikarinn og hvort að hann spáði mikið í hvernig og hvort að hann ætti möguleika á að komast í liðið í haust.

„Ryder bikarinn? Ég held að ég hafi ekkert hugsað út í það. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá veit ég ekki einu sinni alveg hvernig þetta virkar og hvað ég þarf að gera til að komast í liðið. Ég held að ef ég vinn eitt eða tvö stærri mót þá á ég skilið að vera í liðinu, ef ég geri það ekki þá á ég það ekki skilið.“

Eins og staðan er núna er Dunne í sjöunda sæti á Evrópulistanum og í 13. sæti á heimslistanum. Fjórir efstu kylfingarnir af stigalista Evrópumótaraðarinnar komast sjálfkrafa í liðið, fjórir kylfinga sem hafa fengið flest stig á heimslistanum komst í liðið og að lokum eru fjórir kylfingar valdir af Thomas Björn, fyrirliða Evrópuliðsins.