Paul Casey: „Hræðilegt að þurfa að bíða“

Paul Casey hóf leik níu hollum á undan síðasta ráshópnum í gær á Valspar Championship mótinu. Með frábærum hring upp á 65 högg tókst Casey að tylla sér í efsta sætið á samtals 10 höggum undir pari. Hann þurfti þó að bíða í töluverðan tíma áður en úrslitin urðu klár og sagði hann eftir mótið að biðin hefði ekki verið skemmtileg.

„Hræðilegt,“ sagði Casey. „Algjört rugl. Þoli ekki svona bið.“

Að lokum voru það Tiger Woods og Patrick Reed sem komust næst því að jafna við Casey, en allt kom fyrir ekki. Reed fékk skolla á 18. eftir að hafa verið um 15 metra frá holunni eftir tvö högg og átt pútt fyrir sigri. Woods átti um 13 metra pútt fyrir fugli á síðustu til þess að jafna við Casey, sem hann missti. Vitandi að Woods væri þekktur fyrir að setja pressupútt ofaní sagði Casey eftir mótið að hann hefði gefið þessu „50-50“ líkur.

„Ég var heppinn þarna.“

Að lokum sagði hann að hann hefði haldið með Woods í mótinu og vonast til þess að hann ynni mótið, ef ekki hann sjálfur.

„Ég er viss um að hann er svekktur að hafa ekki unnið. Í sannleika sagt fyrir hringinn þá hélt ég að Woods ynni mótið. Það var eitthvað svo fallegt við það. Ég sagði það nokkrum sinnum að ef ég vinn ekki þá vona ég að hann vinni. Ég er samt ánægður að þetta fór svona.“