Ótrúlegar myndir af ökkla Tony Finau

Tony Finau spilaði á sínu fyrsta Masters móti nú um helgina og náði frábærum árangri. Finau spilaði hringina fjóra á 68-74-73-66 höggum og endaði því á sjö höggum undir pari jafn í 10. sæti. Á lokahringnum fékk hann meðal annars sex fugla í röð á holum 12-17.

Með þessum árangri hefur hann tryggt sér þátttökurétt á mótinu á næsta ári, en þeir sem enda á meðal 10 efstu fá sjálfkrafa þátttökurétt árið eftir.

Fyrir þá sem ekki muna þá lenti Finau í því að fara úr ökklalið á miðvikudaginn, deginum fyrir fyrsta hring mótsins. Um tíma var ekki vitað hvort að hann yrði með. 

Eftir læknisheimsóknir og myndatökur fékk hann grænt ljós á að leika og virtist ökklinn lítið trufla hann. PGA mótaröðin birti svo myndir af ökklanum hjá Finau eftir mótið og sést greinilega að ökklinn var ekki alveg í lagi. Myndirnar má sjá hér að neðan.