Opna mótið fer fram á St. Andrews árið 2021

Opna mótið fer fram á St. Andrews golfvellinum í Skotlandi árið 2021 í 30. skiptið í sögu mótsins. Þetta tilkynnti R&A í dag.

Opna mótið fer fram í 150. skiptið árið 2021 en það fór síðast fram á St. Andrews árið 2015 þegar Bandaríkjamaðurinn Zach Johnson hafði betur gegn Louis Oosthuizen og Marc Leishman í fjögurra holu bráðabana um sigur.

Framkvæmdastjóri R&A sagði í tilkynningu að það væri viðeigandi að hinn sögufrægi golfvöllur St. Andrews fengi að halda 150. Opna mótið.

„Opna mótið hefur skipað sér sess í hjörtum kylfinga um allan heim. Fjölmargir heimsklassa kylfingar hafa sigrað á St. Andrews í gegnum tíðina frá því að Opna mótið fór fyrst fram á Old Course árið 1873.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is