Opna bandaríska: Fjórir jafnir í forystu þegar mótið er hálfnað

Þegar annað risamót ársins, Opna bandaríska, er hálfnað eru það þeir Paul Casey, Brian Harman, Tommy Fleetwood og Brooks Koepka sem deila forystunni. Allir eru þeir jafnir á 7 höggum undir pari en leikið er á hinum erfiða Erin Hills golfvelli í Wisconsin. Fjórmenningarnir eiga það allir sameiginlegt að hafa ekki enn sigrað á risamóti.

Eftir frábæran fyrsta hring náði Rickie Fowler ekki að sýna sömu takta í dag en hann kom inn á einu höggi yfir pari á öðrum hringnum og er samtals á -6 eftir tvo hringi. Hann er jafn þeim Jamie Lovemark og J.B. Holmes í 5. sæti.

Áhugakylfingurinn Cameron Champ hefur leikið frábært golf það sem af er móti. Hann er tveimur höggum á eftir efstu mönnum á fimm höggum undir pari og deilir 8. sæti með kylfingum á borð við Brandt Snedeker og Hideki Matsuyama.

Athygli vekur að þrír efstu kylfingar heimslistans komust ekki í gegnum niðurskurðinn í mótinu. Dustin Johnson lék á fjórum höggum yfir pari, Rory McIlroy á +5 og Jason Day +10.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is