Ólafur Björn lék á 20 höggum undir pari í Meistaramóti NK

Ólafur Björn Loftsson og Karlotta Einarsdóttir fögnuðu í gær sigri í meistaraflokki á Meistaramóti Nesklúbbsins og eru því klúbbmeistarar árið 2018. Bæði voru þau með örugga forystu fyrir lokahringinn og því sigrarnir í raun aldrei í hættu.

Ólafur Björn lék stórkostlegt golf í mótinu en hann lék samtals á 20 höggum undir pari á hringjunum fjórum (65, 72, 65, 66). Í mótinu fékk Ólafur einn örn, 21 fugl og einungis þrjá skolla.

Ólafur endaði 16 höggum á undan Nökkva Gunnarssyni sem var þó á flottu skori (-4). Kjartan Óskar Karítasarson endaði í þriðja sæti á 3 höggum undir pari.


Skorkort Ólafs í mótinu.

Karlotta varð í gær klúbbmeistari NK þriðja árið í röð. Hún lék hringina fjóra samtals á 13 höggum yfir pari og endaði að lokum 17 höggum á undan Helgu Kristínu Gunnlaugsdóttur sem varð önnur. Þyrí Valdimarsdóttir endaði í þriðja sæti á 38 höggum yfir pari.


Skorkort Karlottu í mótinu.

Öll nánari úrslit er hægt að nálgast á golf.is.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is