Ólafía Þórunn töluvert frá því að komast áfram

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik á öðrum hring Hugel-JTBC LA Open mótsins, en mótið er hluti af LPGA mótaröðinni. Fyrstu tvo hringina lék hún á samtals 10 höggum yfir pari og því ljóst að töluvert vantaði upp á til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Fyrir daginn var vitað að Ólafía þyrfti á góðum hring að halda ætlaði hún sér áfram eftir að hafa leikið á 75 höggum á fyrsta hring. Hún hóf leik á 10. holu og lék fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari og var þá í ágætis málum.

Síðari níu holurnar reyndust henni aftur á móti einstaklega erfiðar, eins og á fyrsta hringnum, en hún lék þær á fimm höggum yfir pari báða hringina. Hún endaði því hringinn á 77 höggum, eða sex höggum yfir pari.

Niðurskurðurinn miðaðist við þær sem voru á fjórum höggum yfir pari og betur. 

Það hefur ekki gengið vel hjá Ólafíu undanfarið, en af þeim sex mótum sem hún hefur tekið þátt í á árinu, þá hefur hún aðeins tvisvar komist í gegnum niðurskurðinn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.