Ólafía Þórunn meðal efstu kylfinga eftir tvo hringi á Indy Championship mótinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hélt áfram frábærri spilamennsku sinni á Indy Women in Tech Championship mótinu í dag þegar hún lék annan hringinn í mótinu á 4 höggum undir pari. Hún er samtals á 9 höggum undir pari eftir tvo hringi en mótið er hluti af LPGA mótaröðinni.

Ólafía Þórunn lék nánast óaðfinnanlegt golf á öðrum hringnum en hún fékk alls 5 fugla, 12 pör og skolla á 18 holu. Ólafía kom inn á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari og má sjá skorkort hennar hér fyrir neðan.

Þegar fréttin er skrifuð er Ólafía jöfn í 4. sæti á 9 höggum undir pari í heildina. Enn eru fjölmargir kylfingar úti á velli og því getur staðan breyst töluvert. Engu að síður hefur spilamennska Ólafíu verið frábær í mótinu hingað til og spennandi helgi framundan. Áætluð staða hennar á stigalistanum er nú 81. sæti en hún var í 101. sæti fyrir mótið.

Lydia Ko er komin upp í efsta sæti á 16 höggum undir pari í heildina en þessi fyrrum besti kylfingur heims leitar nú að sínum fyrsta titli á LPGA mótaröðinni frá því í fyrra sem telst langur tími á hennar mælikvarða.

Lexi Thompson, sem leiddi eftir fyrsta dag á 9 höggum undir pari, á enn eftir að fara út á öðrum hringnum.

Búast má við því að Ólafía fari seint út á morgun, laugardag, á þriðja hring. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is