Ólafía Þórunn lék lokahringinn á 5 höggum undir pari

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag lokahringinn á Pure Silk Bahamas mótinu á 5 höggum undir pari og kom sér upp í 24. sæti. Samtals lék hún hringina þrjá í mótinu á 1 höggi undir pari við erfiðar aðstæður.

Lokahringur Ólafíu var jöfnun á lægsta hring dagsins. Hún fékk alls 5 fugla á hringnum og tapaði ekki höggi. Hún tapaði raunar ekki höggi á síðustu 25 holum mótsins og lék þær á heilum 10 höggum undir pari. Hreint út sagt frábær spilamennska hjá Íþróttamanni ársins 2017.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.

Kylfingur.is fylgdist með Ólafíu á lokahringnum og má sjá textalýsingu frá hringnum hér fyrir neðan:

Fyrir lokahringinn er Shanshan Feng frá Kína með högg í forskot í efsta sæti mótsins. Hún er samtals á 7 höggum undir pari eftir að hafa leikið annan hringinn á 4 höggum undir pari. Höggi á eftir Feng er Amy Yang.

Ólafía er jöfn í 55. sæti fyrir lokahringinn. Í fyrra endaði hún í 69. sæti í þessu sama móti en það var fyrsta mótið hennar á LPGA mótaröðinni. Þá lék hún hringina fjóra samtals á 5 höggum undir pari við töluvert betri aðstæður.

Brittany Lincicome, sem hefur titil að verja í mótinu, er jöfn í þriðja sæti fyrir lokahringinn á 5 höggum undir pari. Lincicome hafði betur gegn Lexi Thompson eftir bráðabana í fyrra en þær eru einmitt jafnar í þriðja sætinu núna og til alls líklegar.

Par á fyrstu holu: Ólafía Þórunn er farin af stað á lokahringnum og byrjar á pari á 10. holu sem er par 4 hola. Ólafía hitti brautina í teighögginu, flötina í innáhögginu og púttaði tvisvar fyrir parinu.

-2 eftir 6 holur: Frábær kafli hjá Ólafíu Þórunni og hún er komin 2 högg undir par á hring dagsins eftir 6 holur. Ólafía er komin upp í 38. sæti en hún hóf daginn í 55. sæti. Ólafía er nú á 7 höggum undir pari á síðustu 13 holum í mótinu, vel gert.

Tvö pör í röð: Ólafía fær par á 7. og 8. holu og er enn á tveimur höggum undir pari á lokahringnum. Ólafía hefur hitt allar brautir í upphafshöggum sínum og er með 12 pútt á fyrstu 8 holunum. 

Þriðji fugl hringsins: Fugl á 11. holu kemur Ólafíu þrjú högg undir par. Hún er nú komin upp í 35. sæti en hún er að leika frábært golf í dag.

Enn bætir Ólafía í: Ólafía er nú komin 5 högg undir par á lokahringnum og -1 í heildina. Hún er komin upp í 25. sæti og hefur ekki enn tapað höggi í dag. Mögnuð spilamennska en þó tvær erfiðar holur eftir.

68 högg: Ólafía lék lokahringinn á Pure Silk Bahamas Classic á 68 höggum eða 5 höggum undir pari. Frábær dagur hjá henni en hún kláraði þar að auki síðustu sex holurnar á öðrum hringnum fyrr í morgun á 4 höggum undir pari. Eins og staðan er núna er Ólafía jöfn í 24. sæti en hringur hennar er jöfnun á lægsta hring dagsins.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is