Ólafía Þórunn lék fyrsta hringinn á 74 höggum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, er meðal keppenda á móti helgarinnar á LPGA mótaröðinni. Mótið er hennar þriðja á tímabilinu en þetta er annað árið hennar á mótaröð þeirra bestu.

Ólafía Þórunn leikur með þeim Daniela Darquea og Nicole Broch Larsen fyrstu tvo hringi mótsins. Í dag hefja þær leik á fyrsta teig klukkan 9:01 að staðartíma eða klukkan 16:01 að íslenskum tíma.

Fylgst verður með skori Ólafíu Þórunnar í beinni hér á Kylfingi en einnig er hægt að smella hér til þess að sjá stöðuna í mótinu.

Uppfært:

+1 eftir 3 holur: Fyrsti skolli dagsins lítur dagsins ljós á þriðju holu vallarins. Ólafía hafði byrjað á tveimur pörum en missti högg á þriðju holunni.

Fyrsti fugl dagsins: Ólafía Þórunn fékk fugl á 5. holu og er komin upp í 41. sæti á pari vallarins.

Annar fugl og annar skolli: Eftir 8 holur er Ólafía Þórunn enn á parinu. Framundan eru tvær par 4 holur áður en komið er að þægilegri par 5 holu.

Jafnt á toppnum: Karine Icher hefur farið best af stað í mótinu en hún er á 6 höggum undir pari eftir 15 holur. Hún er með högg í forskot á næstu kylfinga sem eru hinar bandarísku Jessica Korda og Amelia Lewis.

Ólafía enn á parinu: Eftir 10 holur er Ólafía Þórunn enn á pari vallarins. Hún er búin að fá tvo skolla og tvo fugla á hring dagsins.

Þriðji fugl dagsins: Ólafía Þórunn fékk skolla á hinni löngu og erfiðu 12. holu en svaraði því með fugli á 15. holu. Íþróttamaður ársins 2017 er því enn á pari vallarins og jöfn í 59. sæti en fjölmargir kylfingar eru að leika vel á fyrsta hringnum.

Slæmur endir: Ólafía fékk tvöfaldan skolla á 18. holu eftir að hafa fengið par á 16. og 17. holu. Hún lýkur því leik á fyrsta hring á tveimur höggum yfir pari og er í neðri hluta keppendahópsins. Eins og staðan er núna er hún jöfn í 119. sæti og þarf á góðum hring að halda á morgun, föstudag, til þess að komast áfram.


Skorkort Ólafíu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is