Ólafía Þórunn komst inn á lokamót LPGA mótaraðarinnar

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, verður meðal keppenda á lokamóti LPGA mótaraðarinnar, sem fer fram um næstu helgi. 

Ólafía tryggði sér þátttökurétt um helgina þegar hún endaði í 35. sæti á Blue Bay mótinu. Þar sem hún er í 80. sæti stigalistans komst hún inn í mótið, ólíkt fjölmörgum sterkum kylfingum.

Meðal kylfinga sem komust ekki inn á lokamótið má nefna Beth Allen, sem m.a. varð stigameistari á Evrópumótaröðinni í fyrra og Mel Reid, sem spilaði í Solheim Cup.

Það þarf vart að taka það fram að þetta er í fyrsta skiptið í íslenskri golfsögu sem kylfingur kemst á lokamót á jafn sterkri mótaröð og LPGA mótaröðinni. Keppnisréttur á lokamótinu mun veita Ólafíu fleiri tækifæri á stærstu mótum næsta árs.

Heildarverðlaunaféð á lokamótinu eru 2,5 milljónir dollara sem er með því hæsta á mótaröðinni. Mótið fer fram í Flórída dagana 16.-19. nóvember.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is