Ólafía Þórunn hefur dregið sig úr Meijer LPGA Classic

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hefur tilkynnt að hún muni ekki vera á meðal keppenda í Meijer LPGA Classic mótinu, eins og til stóð. Mótið er hluti af LPGA mótaröðinni og hefst á morgun (fimmtudag) í Michigan fylki í Bandaríkjunum.

Þetta kom fram í tilkynningu sem Ólafía setti á Fésbókar síðu sína í gær. Ástæða þess að hún dregur sig úr keppni ku vera sú að hún þjáist af klemmdri taug í vinstri öxlinni og hefur það verið að valda henni óþægindum síðustu daga. 

Hún íhugaði að draga sig úr keppni á úrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið, eftir að hafa leikið fyrri hringinn á 81 höggi. Hins vegar ákvað hún að láta reyna á seinni hringinn, sem hún lék á 72 höggum og náði því ekki að tryggja sér þátttökurétt á mótinu.

Ólafía ætlar að taka sér hvíld í nokkra daga en segist þess fullviss að hún verði klár fyrir Walmart NW Arkansas meistaramótið, sem hefst þann 23. júní næstkomandi.

Færsluna frá Ólafíu má sjá í heild sinni hér að neðan.