Ólafía Þórunn frábær í Ástralíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sýndi hvað í henni býr á þriðja hring Ladies Classic Bonville mótsins þegar hún kom í hús á 67 höggum. Enn eiga margar eftir að ljúka leik, en þegar þetta er skrifað er Ólafía jöfn í 23. sæti og búin að fara upp um rúmlega 40 sæti milli hringja.

Hún hóf leik á fyrsta teig og var á parinu eftir sex holur, búin að fá einn fugl, einn skolla og fjögur pör. Þá gerði Ólafía sér lítið fyrir og fékk örn á sjöundu holu áður en hún fékk tvö pör í röð. Hún var því á tveimur höggum undir pari.

Hún byrjaði síðari níu holurnar á því að fá fugl, en fylgdi því eftir með skolla. Ólafía lék svo síðustu sjö holurnar frábærlega, en hún fékk fugl á holum 14, 15 og 18 og lauk því leik á fimm höggum undir pari.

Eftir daginn er Ólafía komin á eitt högg yfir par, en hringina þrjá er hún búin að leika á 80, 70 og 67 höggum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Sjá einnig:

Valdís Þóra í þriðja sæti fyrir lokahringinn