Ólafía Þórunn fikrar sig upp listann

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, bætti sig um fimm högg milli annars og þriðja hrings á Blue Bay LPGA mótinu. Ólafía lék þriðja hringinn á 71 höggum og er þegar þetta er skrifað jöfn í 22. sæti og er búin að lyfta sér upp um 14 sæti frá því í gær.

Ólafía fékk fugl strax á fyrstu holu dagsins, en hún hóf leik á fyrstu braut. Skolli og tvö pör fylgdu í kjölfarið. Síðustu fimm holurnar á fyrri níu holunum lék hún á tveimur höggum undir pari þar sem hún fékk fugl á holum fimm og sjö.

Á síðari níu holunum gaf Ólafía aðeins eftir. Þar fékk hún tvo skolla, einn fugl og restina pör. Hún lék því hringinn á einu undir pari og er samtals eftir daginn á þremur höggum yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.