Ólafía Þórunn fékk tæpar 11 milljónir í verðlaunafé

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sínum besta árangri á LPGA mótaröðinni í gær þegar hún endaði í fjórða sæti á Indy Women In Tech mótinu. Ólafía endaði ein í fjórða sæti á 13 höggum undir pari, en hún tryggði sér fjórða sætið með því að vippa ofan í fyrir erni á lokaholunni.

Með þessum árangri er Ólafía búin að komast langt með það að tryggja sér áframhaldandi þátttökurétt á LPGA mótaröðinni á næsta ári, en 100 efstu kylfingarnir á stigalistanum halda rétti sínum. Eftir mótið er Ólafía komin í 79. sætið, en fyrir helgina var hún í 101. sæti.

Einnig komst hún töluvert ofar á peningalista mótaraðarinnar, en eftir helgina er hún í 67. sæti. Á árinu hefur hún unnið sér inn samtals 174.999 dollar, eða rétt um 18,5 milljónir króna. Þar af vann hún sér inn tæpar 11 milljónir fyrir árangurinn nú um helgina.

Næsta mót Ólafíu er Evian Champioship mótið sem fram fer um næstu helgi í Frakklandi og er þetta í leiðinni síðasta risamót ársins.