Ólafía Þórunn fékk örn á lokaholunni og flaug áfram

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, var rétt í þessu að ljúka öðrum hring á Volvik Championship mótinu, sem er hluti af LPGA mótaröðinni. Fyrir daginn var Ólafía jöfn í 21. sæti á þremur höggum undir pari, en eftir hring upp á 71 högg er hún jöfn í 30. sæti.

Ólafía hóf leik á 10. holu í dag og átti mjög góða byrjun. Á fyrri níu hounum fékk hún þrjá fugla og einn skolla og lék þær því á tveimur höggum undir pari og var komin samtals á fimm högg undir par.

Þrír skollar í röð á 2., 3. og 4. holunni komu henni hins vegar niður á samtals tvö högg undir par og stefndi allt í það að hún lyki leik á einu höggi yfir pari. Hins vegar gerði Ólafía sér lítið fyrir og fékk örn á níundu holunni, sem var loka hola hennar, en holan um 369 metra löng par 4 hola. Því lauk hún leik á 71 höggi, eða einu höggi undir pari. Samtals er hún því á fjórum höggum undir pari og jöfn í 30. sæti þegar þetta er skrifað.

Eins og staðan er núna miðast niðurskurðurinn við þær sem eru á einu höggi undir pari eða betur og því flýgur Ólafía gegnum niðurskurðinn.

Enn eiga nokkrar konur eftir að klára en þegar fréttin er skrifuð er það Sung Hyun Park sem situr á toppnum á samtals 11 höggum undir pari. 

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.