Ólafía Þórunn endaði jöfn í 35. sæti

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, lauk í nótt leik á Blue Bay LPGA mótinu. Lokahringinn lék hún á 76 höggum og endaði hún mótið jöfn í 35. sæti.

Ólafía fór ekki vel af stað á hringnum. Hún fékk skolla strax á fyrstu holunni, en fylgdi því þó eftir með að fá tvö pör í röð. Skollar á holum fjögur, sex og níu gerði það að verkum að hún lék fyrri níu holurnar á fjórum höggum yfir pari. 

Skollarnir héldu áfram að koma á síðari níu holunum, en hún fékk skolla á bæði holum 10 og 11. Ólafía náði aðeins að spýta í lófana og fékk tvo fugla í röð á holum 13 og 14. Þar við sat og endaði hún hringinn á 76 höggum, eða fjórum höggum yfir pari. Mótið endaði hún samtals á sjö höggum yfir pari og varð hún jöfn í 35. sæti.

Með þessum árangri fer Ólafía upp um tvö sæti á stigalista LPGA mótaraðarinnar og situr hún nú í 80. sæti.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.