Ólafía Þórunn á 74 höggum á fyrsta hring í Suður-Kóreu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hóf í nótt leik á LPGA Keb Hana Bank meistaramótinu. Mótið er hluti af LPGA mótaröðinni og fer mótið fram í Suður-Kóreu. Ólafía lék fyrsta hringinn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari.

Ólafía hóf leik á 10. holu og var á parinu eftir sex holur, með einn fugl, einn skolla og fjögur pör. Tveir skollar, á holum 16 og 17, gerði það að verkum að hún lék fyrri níu holurnar á tveimur höggum yfir pari.

Á síðari níu holunum fékk Ólafía einn fugl, einn skolla og restina pör og lék þær því á parinu. Samtals er Ólafía þá á tveimur höggum yfir pari, eins og áður sagði, og er hún jöfn í 59. sæti.

Minjee Lee og Min-Sun Kim eru efstar þegar þetta er skrifað, en þær eru báðar á sex höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.