Ólafía Þórunn á 72 höggum í Kína

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hóf í nótt leik á Blue Bay LPGA mótinu sem fram fer í Hainan eyjunni í Kína. Ólafía lék fyrsta hringinn á 72 höggum og er jöfn í 33. sæti þegar þetta er skrifað, en ekki hafa allar lokið leik.

Ólafía hóf leik á fyrstu holu og byrjaði daginn frekar illa, en hún fékk tvöfaldan skolla á fyrstu holunni. Hún svaraði því aftur á móti með því að fá fugl á annarri holu. Ólafía fékk svo fimm pör í röð áður en hún fékk tvo fugla á holum átta og níu.

Á síðari níu holunum fékk hún fugl á 11. holunni og var þá komin á tvö högg undir par. Tveir skollar á holum 12 og 13 gerðu það að verkum að hún var aftur komin á parið. Hún fékk svo par það sem eftir var. Hringur upp á 72 högg raunin, eða pari vallar.

Þegar þetta er skrifað er Sun Young Yoo efst á sjö höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.