Ólafía Þórunn: „Góð tilfinning að sjá nafnið mitt svona ofarlega á skortöflunni“

Eftir glæsilegan annan hring á Indy Women in Tech Championship mótinu var Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fengin í viðtal á heimasíðu LPGA mótaraðarinnar.

Ólafía var spurð hvernig tilfinningin væri að sjá nafn sitt svo ofarlega á skortöflunni fyrir lokahringinn.

„Það er skemmtilegt, í eitt skiptið var mér óvart litið á skortöfluna og hugsaði „wow“. Það er ný og góð tilfinning að sjá nafnið sitt svona ofarlega á skortöflunni.“

Aðspurð hvernig hún ætlaði sér að á lokahringnum var svarið auðvelt: „Gera það sama og ég hef verið að gera undanfarna daga,“ áður en hún bætti við að hún þyrfti aðeins að fara á æfingasvæðið í dag.

„Ég þarf að fara á æfingasvæðið, höggin mín fóru í aðeins meiri sveig til hægri en ég vildi í lok hrings þannig ég þarf aðeins að vinna í því og þá verð ég tilbúin í morgundaginn.“

Lokahringur Indy Women in Tech Championship mótsins fer fram á morgun. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er jöfn í 7. sæti eins og staðan er núna þegar örfáir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á öðrum hringnum. Hún er samtals á 9 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Hér er hægt að sjá viðtalið við Ólafíu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is