Ólafía og Valdís hefja leik í Ástralíu í kvöld og nótt

Bæði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir verða í eldlínunni í kvöld og nótt þegar LPGA mótaröðin fer af stað að nýju. Eins og greint var frá í gær vann Valdís sér inn þátttökurétt á mótinu eftir að hafa endaði jöfn í efsta sætinu í úrtökumóti sem fór fram í vikunni. Mótið sem um ræðir er ISPS Handa Women's Australian Open og fer mótið fram í Ástralíu. 

Ólafía Þórunn hefur leik klukkan 8:06 að staðartíma, sem er 22:36 að íslenskum tíma og byrjar hún á 10. teig. Hún leikur í holli með þeim Cydney Clanton og Angela Stanford. Sú síðarnefnda hefur sigrað á fimm mótum á ferli sínum á LPGA mótaröðinni og hefur endað í topp sex í öllum risamótunum, en hún hefur þó aldrei náð að vinna.

Valdís Þóra er í einum af síðustu ráshópunum. Hún fer út klukkan 13:29 að staðartíma, sem er 4:09 að íslenskum tíma. Með henni í holli eru þær Saranporn Langkulgasettri og Paula Reto. Þær hefja leik á fyrsta teig.


Valdís Þóra Jónsdóttir.