Ólafía náði ekki að tryggja sér fullan keppnisrétt á LPGA mótaröðinni

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður ekki með fullan keppnisrétt á LPGA mótaröðinni árið 2019. Þetta varð ljóst í gær þegar lokahringur lokaúrtökumótsins fyrir mótaröðina fór fram á Pinehurst svæðinu í Norður-Karólínu.

Síðasti hringurinn var í raun ekki spennandi fyrir Ólafíu en hún átti ekki mikla möguleika á að enda í topp-45. Hún lék hringinn á 8 höggum yfir pari og endaði á samtals 28 höggum yfir pari.

Skor hennar dugði í 93. sæti af 102 keppendum en eins og vitað var fyrir mót öðluðust 45 efstu kylfingarnir keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

Samkvæmt heimildum blaðamanns mun Ólafía þó að öllum líkindum leika í einhverjum mótum á LPGA mótaröðinni á næsta ári en hún verður með takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni og verður því oftar en ekki á biðlista í mótin. Þá mun hún leika á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún er enn með keppnisrétt.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is