Ólafía komst ekki áfram eftir erfiðan dag

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Bank of Hope Founders Cup mótinu. Hringina tvo lék hún á samtals sex höggum yfir pari og var sjö höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.

Vitað var fyrir annan hringinn að Ólafía þyrfti á góðum hring að halda eftir að hafa leikið á 74 höggum á fyrsta hring. Hún byrjaði hringinn vel og var á einu höggi undir pari eftir sjö holur. Þá komu aftur á móti tveir tvöfaldir skollar í röð og lék hún því fyrri níu holurnar á þremur höggum yfir pari.

Á síðari níu holunum náði hún að vinna eitt högg til baka með fugli á þriðju holunni. Hún fékk aftur á móti tvo skolla á síðustu fimm holunum og kom hún því í hús á samtals 76 höggum, eða fjórum höggum yfir pari.

Eins og áður sagði var hún sjö höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn, en þær sem voru á einu höggi undir pari eða betur komust áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.