Ólafía bætti sig um fimm högg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir bætti sig um fimm högg milli hringja á LPGA Mediheal Championship mótinu. Hún lék annan hringinn á 72 höggum eða pari vallar og endaði mótið jöfn í 95. sæti.

Það var ljóst áður en annar hringurinn hófst að Ólafía þyrfi á góðum hring að halda eftir að hafa leikið á 77 höggum á fyrsta hringnum. Hún hóf leik á 10. holu í gær og byrjaði hringinn á þremur pörum. Á næstu sex holum fékk hún meðal annars þrjá skolla og einn fugl og lauk því leik á tveimur höggum yfir pari á fyrri níu holunum.

Á síðari níu holunum sýndi Ólafía að hún á nóg inni, en hún fékk á þeim þrjá fugla, einn skolla og restina pör. Hún kom því í hús á parinu, eða 72 höggum. Eftir hringina tvo er Ólafía á samtals fimm höggum yfir pari og ljóst að hún kemst ekki í gegnum niðurskurðinn, en þær sem voru á tveimur höggum yfir pari og betur komust áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.