Nýjar kylfur kalla á mælingu

- mikið af skemmtilegum nýjungum í golfvarningi í Erninum

„Það hafa mjög margir verið að endurnýja golfsettið sitt að undanförnu og langflestir fara í mælingu. Þá mælum við sveifluhraða viðkomandi og anað í sveiflunni sem nýtist í að velja réttu græjurnar,“ segir Rafn Stefán Rafnsson, verslunarstjóri í Erninum golfverslun sem flutti á nýjan stað í Reykjavík í fyrra. Er núna við Bíldshöfða 9 eftir að hafa verið lengi aðeins ofar í götunni.

„Traffíkin til okkar hefur aukist mikið yfir vetrartímann og tengist líklega mest aukinni aðsókn í golfherma,“ segir verslunarstjórinn og bætir því að kylfingar á öllum stigum séu nú farinn að sækja meira í alls kyns æfingatæki sem eru á boðstólum og hjálpa kylfingnum við æfingarnar. Púttmottur eru til dæmis nefndar í því sambandi en þær eru orðnar betri nú til dags og sumum fylgja fjölbreytt æfingakerfi.

Verslunin er smekkfull af golfvarningi frá helstu framleiðendum heims og Rafn segir að það sé greinilegt að landinn sé í góðum golfgír. Við spyrjum hann fyrst út í golfsettin. Koma kylfingar og kaupa heilt sett af sömu gerð, frá fleygjárni og upp í dræver?
„Það er minna um það nú orðið en var algengt hér á árum áður. Með mælingunum hefur það breyst.“

Þið eruð með gott úrval en hvað er heitast hjá ykkur?
„Við erum með mikið framboð af skemmtilegum járnasettum, bæði fyrir þá sem eru svokallaðir meðalkylfingar eða styttra á veg komnir en einnig fyrir þá sem eru komnir lengra. Ég get t.d. nefnt P790 Taylor Made og G-700 járnasettin frá Ping, bæði frábær en auðvitað mörg önnur. XXIO má líka nefna, en það er merki sem er að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum eftir að hafa átt stóran hlut í Asíumarkaðinum undanfarna áratugi. 

Þegar þú spyrð um drævera þá erum við auðvitað með þann heitasta á markaðnum, Taylor Made M3 og M4 en Rory McIlroy, Dustin Johnson og Tiger Woods eru allir með Taylor Made í pokanum sínum. Það er mjög mikilvægt að mæla þann sem er að kaupa dræver. Við sjáum oft mikinn mun á tölum í þeim og þá endar fólk ekki endilega með sömu tegund af dræver og járnasetti. Þessi langa kylfa hefur eins og annað lækkað í verði á síðustu tveimur árum en algengt verð er 50-60 þús. en svo eigum við mjög vinsælan dræver á 39 þús. frá Cleveland sem m.a. Jamie Sadlowski, einn högglengsti kylfingur heims notar. Verð á járnasettum er algengt á bilinu 14-20 þúsund kylfan.“

Margir eru á því að mikilvægasta kylfan í pokanum sé pútterinn og úrvalið í Erninum af þeirri kylfu er mikið. En hvað er að frétta úr púttheiminum?
„Þegar tveggja bolta pútterinn („two ball“) frá Oddysey kom á markaðinn fyrir meira en áratug sló hann í gegn og varð lang vinsælasti pútterinn í heiminum. Þú sérð ennþá fjölda kylfinga með þann pútter í pokanum. Núna eru hins vegar svokallaðir „spider“ pútterar sjóðheitir. Jason Day, ásamt efsta kylfingi heims, Dustin Johnson skaut honum upp á stjörnuhimininn. Nú eru komnar fleiri gerðir af þessum magnaða pútter og við fáum reglulega fólk hingað í búðina sem biður bara um spider pútter og labbar með einn út skömmu síðar.“Golfboltar hafa tekið breytingum á undanförnum árum þar sem tæknin hefur hjálpað til í efninu sem fer utan um kjarnann. Rafn segist hafa setið svakalegan fyrirlestur um golfbolta í vetur en niðurstaðan sé sú að engin boltategund hegðar sér eins og því þarf fólk að finna aðeins út úr því sjálft. „Þetta snýst um hvernig þú slærð boltann, sem og hvernig þú vilt að hann hegði sér. Flestir framleiðendur eru með mjög góða bolta, þriggja til fimm laga sem eru það flottasta í dag en síðan ódýrari gerðir líka. Golfboltinn er klárlega vanmetinn búnaður hjá mörgum sem þykir ekkert tiltökumál að nota bara þann sem hendi er næst.“.

Við ræðum við Rabba um allt það helsta sem kylfingar þurfa við golfleikinn. Skór eru hluti af því. Það er um áratugur síðan að mikil bylting átti sér stað í golfskóm þegar Ecco mætti með „street“-skó, léttari skó en við áttum að venjast og ekki með þessu venjulegu tökkum. Allir framleiðendur fylgdu Ecco eftir og nú eru léttari skór alls ráðandi og hafa verið undanfarin ár. „Það sem hefur gerst er að þessi þróun hefur aðeins farið til baka því takkarnir hafa verið að koma inn meira aftur og aðeins stífari skór. Það sem léttu skórnir hafa ekki eins og gömlu skórnir er stuðningurinn sem margir hafa saknað. Nú er verið að huga betur að þeim þætti aftur. En ég segi að fólk á að vanda valið í golfskóm, 18 holu hringur er að minnsta kosti 10 kílómetra gangur, mun meira hjá sumum.“Ekki er hægt að sleppa í golfspjalli að spyrja út í golffatnað. Örninn hefur í mörg ár verið nokkuð þekktur fyrir að selja hinn þekkta Galvin Green fatnað fyrir karla og konur og kannski sérstaklega í vind- og regnfatnaði. „Það hefur orðið mikil breyting hjá Svíunum sem framleiða Galvin Green. Þeir hafa fundið nýtt efni sem er komið í regnfatnaðinn. Það er mýkra og þá skrjáfar ekki í því sem er ánægjuleg breyting. Fólk þarf virkilega að koma og skoða þetta og finna muninn. Viðtökurnar hafa þegar verið mjög góðar.“Frá því í gamla daga hefur orðið mikil breyting í kerrum. Það veit sem þetta skrifar sem byrjaði í golfi fyrir 45 árum. Þriggja hjóla kerrur voru bylting þegar þær komu á markaðinn og þá breyttist kerrumenning. Kylfingar fóru að ýta settinu á undan sér í stað þess að draga það, eins og það var kallað. Nú er nýja byltingin í rafmagnskerrum og þær eru orðnar ansi magnaðar og mun léttari en þegar þær komu fyrst á markaðinn. „Það hefur orðið hugarfarsbreyting getum við sagt því nú er yngra fólk farið að nota rafmagnskerrur. Ekki bara eldri kylfingar. Þessi þróun fór á enn hærra stig í fyrra þegar eftirspurning jókst mjög mikið hjá okkur. Við seldum upp margar pantanir í fyrra og það er sama staða núna. Það myndast hreinlega biðlistar, sem er pínu skemmtilegt þó svo að maður vilji alltaf eiga vöruna á staðnum. Verðið hefur eins og á svo mörgu líka lækkað og nú er algengt verð á rafmagnskerru frá 100 til 140 þús. kr.,“ sagði Rafn að lokum.