Nordic Golf: Þrír íslenskir kylfingar meðal keppenda á fyrsta móti ársins

Fyrsta mót ársins á Nordic Golf mótaröðinni fór af stað í dag í Barselóna. Þrír íslenskir atvinnukylfingar eru meðal keppenda í mótinu en það eru þeir Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús sem allir leika fyrir Golfklúbb Reykjavíkur.

Mótið í Barselóna er eitt af þremur mótum sem fara fram á Spáni í febrúar á mótaröðinni. Leikið er á tveimur völlum á Catalunya svæðinu, Tour vellinum og Stadium.

Guðmundur Ágúst lék best af íslensku kylfingunum en hann kom inn á pari Stadium vallarins. Guðmundur er jafn í 27. sæti af 129 keppendum sem hófu leik í mótinu.

Andri Þór lék á höggi yfir pari á fyrsta hringnum en hann lék á Tour vellinum. Andri er jafn í 46. sæti og er rétt við niðurskurðarlínuna.

Haraldur Franklín lék á tveimur höggum yfir pari og er höggi frá öruggu sæti miðað við stöðuna eftir fyrsta daginn. Hann lék líkt og Guðmundur á Stadium vellinum.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu. Skorið er niður eftir tvo hringi og standa þá 45 efstu kylfingarnir eftir sem munu leika til sigurs. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Andri Þór Björnsson.


Haraldur Franklín Magnús.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is