Nordic Golf: Haraldur efstur fyrir lokahringinn

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, heldur áfram að gera frábæra hluti á Nordic Golf mótaröðinni. Eftir tvo hringi á Tinderbox Charity mótinu er Haraldur í efsta sæti, samtals á 10 höggum undir pari. Lokahringur mótsins fer fram á morgun.

Haraldur lék fyrsta hringinn á sex höggum undir pari og hélt uppteknum hætti á öðrum hringnum og kom inn á fjórum höggum undir pari. Eftir tvo hringi er Haraldur með högg í forskot á næsta mann sem er Christopher Nielsen frá Svíþjóð.

Fyrir Tinderbox Charity mótið var Haraldur Franklín í þriðja sæti stigalistans og myndi sigur í mótinu fara langleiðina með að tryggja hann á meðal fimm efstu í lok tímabils. Efstu fimm sætin fá fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili en Birgir Leifur Hafþórsson er einmitt með keppnisrétt á þeirri mótaröð. Það er því spennandi lokahringur framundan.

Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Ólafur Björn Loftsson eru einnig með í mótinu. Ólafur Björn (+1) komst í gegnum niðurskurðinn en Guðmundur Ágúst (+4) og Axel (+4) féllu úr leik í dag. Alls komust 45 efstu kylfingarnir áfram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu. Lokahringur mótsins fer fram á föstudaginn.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is