Nordic Golf: Guðmundur Ágúst endaði tímabilið í 23. sæti á stigalistanum

Lokamót tímabilsins á Nordic Golf mótaröðinni fór fram 11.-13. október. Jacob Glennemo stóð uppi sem sigurvegari í mótinu og tryggði sér endanlega sæti á Áskorendamótaröðinni í leiðinni þar sem hann endaði í einu af fimm efstu sætum stigalistans.

Þrír íslenskir kylfingar tóku þátt í meira en sex mótum á Nordic Golf mótaröðinni á nýliðnu tímabili og náði Guðmundur Ágúst Kristjánsson bestum árangri. Hann endaði í 23. sæti á stigalistanum eftir 20 mót á tímabilinu.

Guðmundur komst 16 sinnum í gegnum niðurskurðinn eða í 80% mótanna og endaði 9 sinnum í einu af 15 efstu sætunum.

Haraldur Franklín Magnús endaði í 55. sæti á stigalistanum og Andri Þór Björnsson í 69. sæti. Haraldur lék í 17 mótum og Andri í 14 mótum.

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum.


Árangur Guðmundar á tímabilinu var góður.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is