Nordic Golf: Frábær byrjun hjá Haraldi

Haraldur Franklín Magnús, GR, lék vel á fyrsta hringnum á Tinderbox Charity mótinu sem hófst í dag á Nordic Golf mótaröðinni og kom inn á sex höggum undir pari. Haraldur er jafn í öðru sæti í mótinu en alls taka 140 kylfingar þátt í mótinu, þar af fjórir íslenskir.

Haraldur hóf leik á 1. holu í morgun og fékk sinn eina skolla þar. Það sem eftir lifði hrings fékk GR-ingurinn sjö fugla og tapaði ekki höggi. Hann kom því inn á 65 höggum eða 6 höggum undir pari. Eftir fyrsta hringinn er Haraldur jafn í 2. sæti, einungis höggi á eftir efsta manni.

Auk Haraldar leika þrír Íslendingar í mótinu. Það eru þeir Axel Bóasson, Ólafur Björn Loftsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Skor þeirra voru eftirfarandi:

54. sæti: Axel Bóasson, GK, +2
67. sæti: Ólafur Björn Loftsson, GKG, +3
80. sæti: Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, +4

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu sem lýkur á föstudaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is