Nordic Golf: Axel í toppbaráttunni eftir tvo hringi

Annar hringur á Willis Towers Watson Masters mótinu var leikinn í Danmörku í dag, en mótið er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Þrír íslenskir kylfingar eru á meðal þátttakenda, en það eru þeir Axel Bóasson, Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús. 

Axel lék hringinn í dag á einu höggi undir pari og er því jafn í 7. sæti á samtals þremur höggum undir pari. Haraldur Franklín átti góðan hring í dag, en hann kom í hús á þremur höggum undir pari og situr jafn í 34. sæti á samtals einu höggi yfir pari. Með þessum góða hring lyfti hann sér upp um 73 sæti. 

Efstu 45 kylfingarnir komust í gegnum niðurskurðinn og flugu því bæði Axel og Haraldur í gegnum niðurskurðinn. Andri Þór náði sér hins vegar ekki á strik í dag en hann lék á þremur höggum yfir pari og endaði í 80. sæti á samtals 6 höggum yfir pari. 

Það er Norðmaðurinn Jarand Ekeland Arnøy sem leiðir eftir tvo hringi, en hann lék á parinu í dag og er samtals á 6 höggum undir pari. 

Hér má sjá stöðuna í mótinu.


Haraldur Franklín Magnús.