Nordic Golf: Axel endaði í 7. sæti

Þriðji og síðasti hringurinn á Willis Towers Watson Masters mótinu fór fram í Danmörku í dag, en mótið er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Þrír íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu en það voru þeir Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús sem komust í gegnum niðurskurðinn. 

Axel var fyrir daginn jafn í 7. sæti. Góður hringur í dag uppá 69 högg (-3) dugði ekki til að koma honum ofar á listann og lauk hann leik jafn í 7. sæti á samtals 6 höggum undir pari. Með þessum fína árangri mun Axel ná að halda sér í efstu 5 sætum stigalistans, en efstu 5 kylfingarnir fá þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. 

Haraldur Franklín Magnús var fyrir daginn jafn í 34. sæti. Hann átti góðan hring í dag og lék á 68 höggum (-4) sem skilaði honum jöfnum í 15. sæti á samtals þremur höggum undir pari. Haraldur er líkt og Axel í baráttunni um að tryggja sér þátttökuréttinn á Áskorendamótaröðinni og mun þessi niðurstaða eflaust hjálpa við það.

Það var Svíinn Per Längfors sem sigraði mótið, en hann lauk leik á samtals 9 höggum undir pari. Knýja þurfti úrslitin fram í bráðabana og hafði Längfors betur á móti Jarand Ekeland Arnøy sem endaði í 2. sæti, einnig á 9 höggum undir pari.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.


Haraldur Franklín Magnús endaði jafn í 15. sæti.