Nordic Golf: Axel endaði í 10. sæti á Race to Himmerland mótinu

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson lauk leik í 10. sæti á næst síðasta móti tímabilsins á Nordic Golf mótaröðinni, Race to Himerland mótinu, sem fór fram dagana 5.-7. október í Danmörku. Axel lék hringina þrjá samtals á 6 höggum undir pari.

Að tveimur hringjum loknum var Axel á 5 höggum undir pari og jafn í 16. sæti. Í dag hóf hann leik á 10. teig og var búinn að bæta við sig þremur fuglum á fyrri níu holunum. Á seinni níu fékk hann svo tvo skolla og lauk leik á höggi undir pari. Fyrir vikið fór hann upp um 6 sæti á lokahringnum og endaði jafn í 10. sæti.

Axel er nú með tæplega 5.000 evru forskot á Christopher Feldborg Nielsen á stigalista Nordic Golf mótaraðarinnar fyrir lokamótið og því kominn með 9 fingur á stigameistaratitilinn.

Haraldur Franklín Magnús tók einnig þátt í Race to Himmerland mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi. Hann er nú dottinn niður í 7. sæti stigalistans og þarf á góðu lokamóti að halda ætli hann sér að enda í  einu af 5 efstu sætum listans sem gefur keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í Danmörku.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is