Nordic Golf: Axel Bóasson sigraði á Twelve Championship

Keilismaðurinn Axel Bóasson stóð uppi sem sigurvegari á Twelve Championship mótinu sem fór fram á Nordic Golf mótaröðinni dagana 21.-22. september. Axel lék samtals á 15 höggum undir pari í mótinu og sigraði með eins höggs mun.

Leikið var með óhefðbundnu fyrirkomulagi í mótinu en í stað 18 holu hringja voru leiknir fjórir 12 holu hringir þar sem skorið var niður eftir tvo, þrjá og fjóra hringi. Eftir þá hringi léku fjórir kylfingar til úrslita í 6 holur þar sem Axel stóð uppi sem sigurvegari.

Axel lék síðustu sex holurnar á 3 höggum undir pari og 15 höggum undir pari í heildina og endaði höggi betri en Jesper Billing. Fyrir síðustu holuna var Billing með högg í forystu á Axel en fékk skolla á sama tíma og Axel fékk frábæran fugl.

Axel hefur nú sigrað á tveimur mótum á tímabilinu á Nordic Golf mótaröðinni og er kominn í efsta sæti stigalistans eftir þetta mót. Árangur hans hefur svo gott sem tryggt honum þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári en það er næst sterkasta mótaröð Evrópu.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús tóku einnig þátt í mótinu. Þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn eftir þrjá hringi.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is