Nökkvi Gunnarsson gefur út bókina GæðaGolf

Út er komin golfkennslubókin GæðaGolf eftir Nökkva Gunnarsson golfkennara. GæðaGolf er handbók og sett upp þannig að kylfingar geta flett upp í bókinni í hvert sinn sem þeir lenda í vandræðum með einhvern þátt leiksins og fundið lausn vandamálsins. Hún ætti því að lifa með lesandanum lengi áfram eftir fyrsta lestur.

Í samtali við Kylfing sagði Nökkvi að bókin hafi verið nokkur ár á teikniborðinu. Tímasetningin á að gefa út bókina nú væri góð þar sem nokkuð mörg ár væru liðin frá útgáfu síðustu íslensku golfkennslubókar. „Vonandi taka kylfingar bókinni vel og hún ætti að vera mjög hentug í jólapakkann fyrir kylfinga,“ sagði Nökkvi.

Bókin inniheldur mikinn fjölda tækniæfinga og keppnislíkra æfinga og um 170 ljósmyndir. Hún er ætluð kylfingum á öllum getustigum til að bæta leik sinn. Einnig má geta þess að í byrjun hvers kafla eru tölfræðimolar sem gefa kylfingum upplýsingar um það hvaða væntingar hann getur gert til höggsins miðað við sína getu.

Uppsetning bókarinnar er eftirfarandi:

Um höfund
Tilgangur bókarinnar
1. Púttin
2. Höggin í kringum flatirnar
3. Millihöggin
4. Sandurinn
5. Brautarhögg
6. Dræverinn
7. Leikskipulag og hugarfar

Bókina er hægt að kaupa á www.gaedagolf.is og kostar hún þar 5.600.- kr og þú færð bókina senda heim að dyrum. Sérstakt tilboð er á bókinni í desember fyrir þá sem eru meðlimir í golfklúbbum innan GSÍ, 4.600.- kr. Til að kaupa bók á tilboði skaltu smella hér.

Einnig er hún í flestum verslunum Pennans Eymundsson, Golfskálanum, Erninum Golfverslun, Forlaginu, og Verslun Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is